Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir fylgja hlustendum inn í daginn, skýra baksvið frétta og ræða við áhugavert fólk um Ísland og umheiminn.
Við fjölluðum um tré og skóga. Við sáum frétt um daginn þar sem sagði að skóglendi Reykjavíkur væri 576 milljarða króna virði. Það er há fjárhæð og hún er fundin með sérstakri viðurkenndri aðferðafræði. Við spjölluðum um þessa staðreynd; um tré og skóga í Reykjavík - og; um takmörkun á umferð um Heiðmörk - gróðurvin höfuðborgarbúa. Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, kom til okkar.
Við ræddum svo við Þórhildi Ólafsdóttur. Hún er ekki heima í Úganda í dag heldur á eyjunni Madagaskar úti fyrir austurströnd Afríku. Þar er fjölskrúðugt dýralíf og þar býr meðal annars lemúrinn sem Þórhildur sagði okkur frá, ásamt fleiru forvitnilegu sem fyrir augu ber á þessari athyglisverðu eyju.
Síðasta hluta þáttarins lögðum við svo undir tangó, í bæði tali og tónum. Jón Sigurður Eyjólfsson, tónlistarmaður og rithöfundur, lék tangó á gítarinn og sagði sögur.
Tónlist:
Ellen Kristjánsdóttir - Hjá lygnri móðu.