Fjallað um "Þulur" Theodoru Thoroddsen sem komu út 1916. Þetta var ekki ljóðabók í hefðbundnum skilningi því hún bar öll einkenni barnabókar, þunnt hefti með myndskreytingum eftir Guðmund Thorsteinsson, öðru nafni Mugg. Samt vöktu þulurnar ekki síður hrifningu fullorðinna en barna og vinsældir þeirra hafa haldist fram á þennan dag. Margir kannast við lagið "Tunglið, tunglið, taktu mig" eftir Stefán S. Stefánsson, en í þættinum verður einnig flutt tónlist eftir Karl O. Runólfsson, Skúla Halldórsson, Unni Birnu Björnsdóttur og fleiri tónsmiði.
Lesari er Leifur Hauksson, en auk þess eru fluttar gamlar hljóðritanir þar sem þulur Theodoru eru lesnar af henni sjálfri og Lárusi Pálssyni leikara. Umsjón með þættinum hefur Una Margrét Jónsdóttir.