Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur kynnti í dag fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir tæplega 5 milljarða króna afgangi af rekstri borgarsjóðs á næsta ári. Minnihutinn hefur gagnrýnt áætlunina og segir hana óábyrga í ljósi óvissu sem uppi er í efnahagsmálum. Rætt við Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra og Hildi Björnsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Tvö leikrit hafa verið frumsýnd í Borgarleikhúsinu á undanförnum vikum. Annars vegar Niflungahringurinn allur og hins vegar Hamlet. Við kíktum í leikhús.
Bein útsending frá spurningakeppni sveitarfélaga. Umsjónarmenn eru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Spurningahöfundur og dómair: Stefán Pálsson. Stjórn útsendingar: Helgi Jóhannesson.
Í þessum þætti mætast lið Borgarbyggðar og Seltjarnarness.
Lið Borgarbyggðar skipa Stefán Gíslason fjallahlaupari og umhverfisfræðingur, Eva Hlín Alfreðsdóttir nemandi við Háskólann á Bifröst og Jóhann Óli Eiðsson blaðamaður á Fréttablaðinu og Vísi.
Lið Seltjarnarness skipa Stefán Eiríksson sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Saga Ómarsdóttir viðburða- og kynningarstjóri hjá Icelandair og Karl Pétur Jónsson framleiðandi og framkvæmdastjóri.
Fjórir þættir þar sem fylgst er með þeim Rósu Gísladóttur myndlistarmanni, Ásu Björk Ólafsdóttur presti, Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara og Yrsu Sigurðardóttur rithöfundi. Dagskrárgerð: Eggert Gunnarsson.
Yrsa Sigurðardóttir, rithöfundur og verkfræðingur, situr sjaldan auðum höndum. Á milli þess að kynna bækur sínar ritar hún nýjar og vinnur þess á milli hjá verkfræðifyrirtækinu Verkís. Í myndinni er rætt við hana um lífið tilveruna og fylgst með vinnu við nýjustu bókina frá ritun að útgáfu og farið með henni til Noregs þar sem hún tók þátt í ráðstefnu glæpasagnahöfunda. Rætt er við Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðanda og Pétur Má Ólafsson útgefanda og fleiri. Dagskrárgerð: Eggert Gunnarsson.
Heimildarmynd frá 2022 um störf vélstjóra og rekstur rafstöðvar Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Bygging Steingrímsstöðvar og upphaf raforkusölu til Varnarliðsins hafði víðtæk áhrif á alla orkuöflun Íslendinga.
Danskir þættir um arkitektúr á tímum loftslagsbreytinga. Hvernig byggjum við borgir fyrir breytt loftslag með stormum og miklum rigningum? Sjálfbær arkitektúr fer vaxandi um heim allan og danskir arkitektar eru þar í fararbroddi. Lausnir við loftslagsvanda sem um leið stuðla að góðu lífi eru í þróun.

Karla er 8 ára kjúklingur, sem hefur það að markmiði að halda öllum ánægðum, svo lengi sem það kemur ekki niður á lífi hennar. Hún elskar skólann sinn og alla vini sína. Hún leggur hart að sér til að þóknast öllum, en stundum ganga hlutirnir ekki alveg eins og áætlað var. Í þessum þáttum eru félagsleg samskipti og tilfinningar þeim tengd könnuð út frá heimi krakkanna. Hvað er rétt og hvað er rangt? Getur maður átt fleiri en einn besta vin?
Ævintýri Tulipop er skemmtileg teiknimyndaþáttaröð um litríkan vinahóp sem býr á töfraeyjunni Tulipop.
Í þáttaröðinni er fylgst með vinunum Fredda, sveppa-systkinunum Búa og Gló, Maddý og ekki má gleyma Herra Barra sem er elstur og vitrastur allra á Tulipop. Þau eru öll afar ólík bæði hvað útlit og skapgerð varðar. Á Tulipop búa sterkar kvenpersónur og staðalímyndir fyrirfinnast ekki. Enginn er fullkominn, öllum verður einhvern tíma á í messunni en það sem mestu máli skiptir er kærleikurinn og vináttan. Í hverjum þætti lenda aðalpersónurnar í spennandi ævintýrum og eignast nýja vini.
Ævintýri Tulipop sækir innblástur sinn í íslenska náttúru, sem leikur stórt hlutverk í þáttaröðinni. Virðing fyrir náttúrunni er í fyrirrúmi og markmiðið er að miðla jákvæðum skilaboðum og gleði til barna á öllum aldri.
Vinirnir eru í feluleik í Leyniskógi þar sem allt er á kafi í snjó. Eina vandamálið er að Freddi kann ekki að fela sig. En viti menn, þegar Freddi gerir lokatilraun til þess að fela sig bak við stórt tré fellur á hann snjódyngja. Hann hefur fundið hinn fullkomina felustað! Nú þarf hann bara að reyna hafa hljótt um sig og standa grafkyrr...
Flóra er níu ára og finnur gat í limgerðinu úti í garði. Hún skríður í gegn og er skyndilega stödd í skóginum endalausa – galdraheimi þar sem allt getur gerst. Þar ráfa um skrítnar og stórkostlegar verur. Þær lenda í ýmiss konar vandræðum og enginn getur hjálpað þeim – nema kannski Flóra sjálf?
Helstu fréttir settar fram á einfaldan og aðgengilegan hátt. Umsjón: Ari Páll Karlsson, Embla Bachmann, Gunnar Hrafn Kristjánsson og Kolbrún María Másdóttir. Handrit og ritstjórn: Ari Páll Karlsson.
Krakkafréttir dagsins: 1. Hrekkjavakan búin, hvað svo? 2. Fellaskóli og Árbæjarskóli áfram í Skrekk. 3. Draugadradróni í Reykjavík. Ari Páll segir Krakkafréttir.

Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.

Afhending Íslensku menntaverðlaunanna á Bessastöðum, þar sem verðlaunað er fyrir framúrskarandi skólastarf, verkefni og kennslu. Dagskrárgerð: Viktoría Hermannsdóttir. Stjórn upptöku: Salóme Þorkelsdóttir.

Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Fríða Ísberg er einn gesta í Kilju vikunnar. Hún segir okkur frá nýrri skáldsögu sinni sem kemur út nú í vikunni. Huldukonan nefnist bókin. Við förum norður í Nes í Aðaldal, á bakka Laxár, og hittum Ester Hilmarsdóttur sem er höfundur skáldsögunnar Sjáandi. Sagnfræðingurinn Davíð Ólafsson ræðir við okkur um Mynd og Hand en það er saga Myndlista- og handíðaskólans, afar merkrar stofnunar sem hóf starfsemi 1939. Svo fjöllum við um sjálfan Fjodor Dostojevskí, einn af risum heimsbókmenntanna, en hin mikla skáldsaga hans Djöflarnir hefur nú verið endurútgefin. Gunnar Þorri Pétursson er sérfróður um Dostojevskí og reifar fyrir okkur þetta stórbrotna verk. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Fröken Dúllu eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur, Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur og Blöku eftir Rán Flygenring.
Áströlsk þáttaröð byggð á samnefndri skáldsögu eftir Liane Moriarty. Sophie Honeywell erfir hús á lítilli eyju í grennd við Sydney. Nokkrum áratugum áður hvarf par á eyjunni og fljótlega eftir komuna þangað áttar Sophie sig á að hún er full af leyndardómum. Aðalhlutverk: Teresa Palmer, Miranda Richardson og Danielle Macdonald. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.

Þýsk heimildarmynd frá 2023. Maastrichsáttmálinn var undirritaður 1992 og markaði upphaf Evrópusambandsins, evrópska ríkisborgararéttarins og sameiginlega markaðarins og undirbjó jarðveginn fyrir evruna. Myndin fjallar um Evrópusambandið frá sjónarhóli kynslóðar sem ólst upp í sameinaðri Evrópu og farið er í ferðalag um álfuna til að kanna arfleifð Maastricht, nú þegar Evrópusambandið á undir högg að sækja. Leikstjóri: David Holland.
Frönsk-kanadísk leikin þáttaröð um örlagaríkt kvöld í lífi tíu ungmenna sem halda spennt á tónleika með átrúnaðargoðinu sinu, INVO. Þegar sprengja springur á miðjum tónleikum breytist líf þeirra til frambúðar. Aðalhlutverk: Lysandre Ménard, Simon Morin, Pier-Gabriel Lajoie og Lévi Doré. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.

Beinar útsendingar frá Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Dagskrárgerð: Þuríður Davíðsdóttir. Kynnar: Bjarni Kristbjörnsson og Salka Gústafsdóttir.
Stjórn útsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir og Sturla Holm.
Bein útsending frá þriðja undankvöldi Skrekks 2025.