Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Gyrðir Elíasson rithöfundur verður gestur í Kilju vikunnar. Við ræðum meðal annars um þýðingar hans, endurútgáfu á ýmsum verkum hans og búferlaflutninga. Yrsa Þöll Gylfadóttir og Iðunn Arna ræða við okkur um Bekkinn minn, en þessi bráðsnjalli bókaflokkur þeirra nýtur feikilegra vinsælda meðal barna. Björn G. Björnsson hefur fjallað mikið um íslenska byggingarlist og í bókinni Frumherjum segir hann frá tíu húsameisturum sem eru fæddir fyrir aldamótin 1900. Þar koma við sögu mörg glæsileg hús, misjafnlega fræg. Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur segir okkur frá bókum sem hann heldur upp á og hafa mótað hann. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Kallaður var hann kvennamaður, ævisögu Sigurðar Breiðfjörð, eftir Óttar Guðmundsson og Klökkna klakatár eftir Ragnhildi Bragadóttur.