
Kortó, Mýsla og Eik eru ákveðin að sigra Hvalabikarkeppnina, drónaflugkeppni sem leiða á í ljós hver verður arftaki vistfræðisnillingsins Hvals Hvíta.
En Tíkíliðið sækist ekki aðeins eftir sigri; aðeins með því að komast í læri hjá Hval Hvíta fá þau aðgang að nýjustu vistvísindunum og geta forðað því að eyjan þeirra hverfi í hafið.
Upptaka frá sérstakri skemmti- og hvatningardagskrá heildarsamtaka launafólks í tilefni baráttudags verkalýðsins árið 2021. Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá launafólki, einkenna þennan sögulega viðburð. Stjórn upptöku: Helgi Jóhannesson. Handrit og leikstjórn: Kolbrún Halldórsdóttir.
Þáttur með brotum af því besta úr sólarhringsútsendingu Landans 22. september 2019. Þátturinn var þrjúhundruðasti þáttur Landans og var í beinni útsendingu í heilan sólarhring þar sem umsjónarmenn voru á ferðinni um land allt. Dagskrárgerð: Gísli Einarsson og Karl Sigtryggsson.
Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
24 stærstu sveitarfélög landsins keppa sín á milli í skemmtilegum spurningaleik. Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir stýra þættinum. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur Bjarni Guðnason. Útsendingu stjórnar Helgi Jóhannesson.
Spurningakeppni sveitarfélaganna. Í þessum þætti mætast lið Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Lið Reykjavíkur skipa: Jón Yngvi Jóhannsson, Stefán Eiríksson og Svanhildur Hólm Valsdóttir. Lið Vestmannaeyja skipa: Ágúst Örn Gíslason, Gunnar K. Gunnarsson og Sveinn Waage. Umsjónarmenn: Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Spurningahöfundur og dómari: Ólafur B. Guðnason. Aðstoð við dagskrárgerð: Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir. Dagskrárgerð: Helgi Jóhannesson.
Ómissandi upphitun fyrir Eurovision. Í þáttunum verður eins og áður farið yfir öll lögin sem keppa í Eurovision í ár, þau vegin og metin og reynt að spá fyrir um gengi þeirra í keppninni. Umsjónarmaður þáttarins er Felix Bergsson og álitsgjafar þau Guðrún Dís Emilsdóttir og Gunnar Birgisson. Stjórn upptöku: Vilhjálmur Siggeirsson.
Heimildarmynd í leikstjórn Einars Þórs Gunnlaugssonar um eitt harðvítugasta verkfall í sögu Íslands sem stóð yfir í sex vikur árið 1955. Fjallað er um aðdragandann, kjör og aðstæður almennings á þessum tíma.
Þáttur um mannlífið í landinu. Landinn leitar uppi skemmtilegt fólk í bæjum og sveitum og skoðar áhugaverða staði landshorna á milli. Ritstjóri er Gísli Einarsson. Aðrir umsjónarmenn: Þórdís Claessen, Hafsteinn Vilhelmsson, Elsa María Guðlaugs - Drífudóttir og Amanda Guðrún Bjarnadóttir. Dagskrárgerð: Jóhannes Jónsson, Elvar Örn Egilsson, Hjalti Stefánsson og Björgvin Kolbeinsson.

Keppni í skapandi þrautum. Skaparar og keppendur hafa 10 mínútur til að klára þraut og taka þátt í Stórhættulegu spurningakeppninni. Þegar tíminn er hálfnaður draga keppendur babb-spjöld. Að sjálfsögðu endar þetta á vænni slímgusu. Dagskrárgerð: Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson.
Skaparar og keppendur eru: Hekla Kristleifsdóttir og Hafþór Bjarni Bjarnason og búa þau til höfuðfat - hvað getur þú nefnt margar tegundir? Húfa, hattur...
Þau Ylfa og Máni standa vaktina í eldhúsinu og kenna okkur hvernig á að elda og baka ýmislegt góðgæti. Dagskrárgerð: Eva Rún Þorgeirsdóttir. Umsjón: Ylfa Blöndal og Hilmar Máni Magnússon.
Í þessum þætti elda Ylfa og Máni gómsæta hamborgara úr nautakjöti og sojakjöti fyrir grænmetisætur.
Síðan búa þau til mjög einfalda kokteilsósu. Hér er uppskritin og leiðbeiningarnar:
Hamborgarar
1 Grænmetisborgari
1 Hamborgari úr nautakjöti
1-2 msk olía á pönnu
1 tsk hamborgararkrydd
Sneið ostur
Settu hamborgarann á heita pönnuna,
kryddaðu með hamborgarakryddi og steiktu á báðum hliðum þar til hamborgarinn er orðinn dökkur á lit.
Settu ostsneið ofan á og láttu ostinn bráðna.
Kokteilsósa
2 msk majones (má vera vegan majones)
1 msk tómatsósa
hræra vel saman
Skerðu niður sneiðar af:
Gúrku
Tómat
Kál
Settu sósuna á hamborgarabrauðið, síðan hamborgarann og loks grænmeti að eigin vali.
Kvikmyndasafn Íslands geymir fjársjóð af kvikmyndum sem sýna íslenskan veruleika snemma á síðustu öld. Egill Helgason og Gunnar Tómas Kristófersson rýna efni og sýna efni sem jafnvel enginn hefur séð. Dagskrárgerð: Ragnheiður Thorsteinsson.
Í þættinum skoðum við myndefni frá þeim tíma þegar Íslendingar fluttust úr sveitinni í sjávarþorp og til Reykjavíkur. Við fylgjumst með fornum atvinnuháttum og uppbyggingu ungrar borgar.
Þættir þar sem Snorri Helgason og Bergur Ebbi fjalla um íslensk dægurlög og setja í samhengi við tísku og tíðaranda. Þættirnir eru byggðir á vinsælu hlaðvarpi þeirra sem hóf göngu sína árið 2014.
Sveitin milli sanda, hin sígilda tónsmíð Magnúsar Blöndal Jóhannssonar frá árinu 1964, er löngu orðin að gersemi í hjarta okkar ungu þjóðar. Enda er lagið demantur í krúnudjásni ástsælustu söngkonu Íslands fyrr og síðar, sjálfrar Elly Vilhjálms. Þeir Fílalags-bræður Snorri Helgason og Bergur Ebbi kjölfíla hér lagið með öllu sem tilheyrir. Við sögu koma Land Roverar, Rússajeppar, eldhræringar og margt margt fleira. Sandra Barilli lítur við.
Þriðja þáttaröð þessara norsku leiknu þátta um samfélagið í Stafangri og breytingarnar sem urðu þegar olía fannst í sjónum úti fyrir bænum og norska olíuævintýrið hófst. Meðal leikenda eru Anne Regine Ellingsæter, Malene Wadel, Mads Sjøgård Pettersen og Pia Tjelta.
Íslensk sjónvarpsmynd í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar. Á fullkomnu sumarkvöldi í fullkomnum sumarbústað kynnir Björk nýja kærastann fyrir Ragnhildi, stóru systur sinni, og manninum hennar. Þær systur hafa farið ólíkar leiðir í lífinu; Ragnhildur er með allt á hreinu, stefnir óðfluga inn á þing og er gift fótboltakappanum, fagfjárfestinum og ættarprinsinum Magnúsi. Aftur á móti er Björk söngkona í hljómsveit sem er alveg við það að slá í gegn og nýi kærastinn, Óskar, býr í bílskúr foreldra sinna á meðan hann safnar fyrir útborgun í íbúð. Það stefnir allt í afslappaða og fullkomna kvöldstund en stundum þarf ekki nema nokkur augnablik og allt breytist. Myndin er byggð á samnefndu leikriti eftir Adolf Smára Unnarsson sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu 2022. Aðalhlutverk: Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir.
Norsk heimildarmynd um popphljómsveitina A-ha. Fylgst er með þremenningunum í A-ha á tónleikaferðalagi um leið og saga þeirra er rakin frá því þeir slógu kornungir í gegn með stórsmellinum Take On Me árið 1985. Þar með rættust allir þeirra draumar - eða hvað? Leikstjórar: Thomas Robsahm og Aslaug Holm.