Syndin er lævís og lipur
Syndin er lævis og lipur, stríðsminningar Jóns Kristófers, eftir Jónas Árnason. Höfundur les, en þetta var áður á dagskrá 1984. Hér segir Jón Kristófer Sigurðsson frá ævi sinni og harla umbrotasömum lífsferli. Hann var uppalinn í Stykkishólmi, gekk ungur í Hjálpræðisherinn en starfaði einnig með veraldlegum vopnasveitum í her hans hátignar. Hann sigldi víða um heimshöfin og lenti í margháttuðum ævintýrum. Hér heima kynntist hann minnisstæðum mönnum, þar á meðal skáldinu Steini Steinarr sem orti um hann frægt kvæði, „Þegar Jón Kristófer Sigurðsson lét úr höfn, stóð Herinn á bryggjunni og söng". Þar standa þær línur sem bókin dregur nafn af. Og það var Steinn sem gaf Jóni Kristófersnafnið sem hann gekk síðan undir, í eigin munni og annarra. En synd Jóns Kristófers var ekki síst sú að hafa ungur gengið Bakkusi á vald sem stýrði síðan lífi hans að drjúgum hluta. Jónas Árnason samdi nokkrar skemmtilegar ævisögur og ýmislegt fleira, þótt kunnastur yrði hann af leikritagerð sinni. Jónas Árnason skrásetti og les.