Þættir frá 2011 þar sem fjallað er um klassíska- og samtímatónlist í víðum skilningi og leitast við að kynna hana á skemmtilegan, aðgengilegan og fjölbreyttan hátt. Tónlistarfólk kemur saman í stúdíói, spjallar um tónverk og leikur þau líka. Þá er rætt við sérfræðinga og áhugamenn úr ýmsum áttum. Umsjónarmenn eru Víkingur Heiðar Ólafsson og Halla Oddný Magnúsdóttir. Dagskrárgerð: Helgi Jóhannesson og Viðar Víkingsson.
Í öðrum þætti er tekinn dálítið djarfur útúrdúr - útúrdúr aftur í aldir. Umfjöllunarefnið íslensk tónlist fyrri tíma. Þáttastjórnendurnir eftirláta sviðið þeim listamönnum sem gera tónlist liðinna tíma í íslandssögunni að tónlist okkar tíma líka. Rétt eins og með hina óheppilega nefndu klassísku tónlist gildir nefnilega hér að tónlist sem er spiluð, tónlist sem hlustað á og hrifist er af í samtímanum hlýtur að teljast samtímatónlist í einhverjum skilningi. Og við getum heitið því að þessi gamla tónlist er glæný fyrir mörgum!