
Mýtur um ástralskar kvenhetjur
Árið 1908 gaf ástralski rithöfundurinn Jeannie Gunn út sjálfsævisögulegu frásögnina We of the Never-Never þar sem hún lýsir dvöl sinni á Elsey-búgarðinum í Norðurhluta Ástralíu. Þeir sem séð hafa stórmyndina Australia frá 2008 með Nicole Kidman og Hugh Jackman í aðalhlutverkum ættu að kannast við söguþráðinn í We of the Never-Never. Í báðum tilfellum fylgir ung, hvít kona eiginmanni sínum út í óbyggðir hins harðneskjulega Norðurhluta Ástralíu. Hennar bíða margar skrautlegar uppákomur í harkalegu karlasamfélagi en jafnframt kemur í ljós að í henni er meiri töggur en ætla mætti í fyrstu. Smám saman nær landið svo tökum á henni með undarlegum töfrum sínum.
Í þáttunum verður fjallað um þá kvenhetju óbyggðanna sem birtist upp úr aldamótunum 1900 í bók Jeannie Gunn og er tekin upp í síðari tíma kvikmyndum en endurskoðuð á róttækari hátt í nýlegri bókmenntum, til dæmis sögunum Lilian's Story eftir Kate Grenville og Fröken Peabody hlotnast arfur eftir Elizabeth Jolley. Ólíkt kynsystrum þeirra um aldamótin hafa konurnar í þessum sögum gefið það upp á bátinn að reyna að sanna sig í karlasamfélagi og leita í staðinn á nýjar og áður ókannaðar slóðir. Um leið er reynt að gera upp samskipti hinnar ótömdu Ástralíu við æðsta fulltrúa vestrænnar menningar, Bretland.
Umsjón: Auður Aðalsteinsdóttir og Ásta Gísladóttir.