Æ sér gjöf til gjalda
Allir elska gjafir, skiljanlega, það er gaman að fá gjöf og gaman að gefa gjöf, en öllu gamni fylgir alvara. Gjöfin virðist við fyrstu sýn vera látlaust fyrirbrigði, eitthvað sætt sem við gefum einhverjum með það eitt í huga að gleðja, en undir yfirborði fallegs jólapakka leynist margt ósagt, óskrifaðar reglur, pólitík og langur listi yfir gjafaferil milli einstaklinga, fjölskyldna og hópa. Gjöfinni fylgir nefnilega skuldbinding, æ sér gjöf til gjalda.
Gjafamenning er til staðar í öllum samfélögum heims og er í raun alltumlykjandi í samskiptum fólks, hvort sem það gerir sér grein fyrir því eða ekki. Við lifum, hrærumst og fylgjum reglum um að gefa, þiggja og endurgjalda, líkt og við gerðum eflaust fyrir 30 þúsund árum.
Eitthvað virðist þó hafa færst til á þessum tíma og gjafainnkaupum fylgir ekki bara skuldbinding heldur líka stress, valkvíði, fjárhagsáhyggjur, spenna innan fjölskyldunnar og drama í ástarsamböndum. En hvers vegna gefum við þá gjafir, er einhver tilgangur með þessu eða getum við allt eins sleppt þessu?
Umsjón: Kristlín Dís Ingilínardóttir.
Framleiðsla: Jóhannes Ólafsson.