
Vinalegir þættir fyrir þau allra yngstu. Molang er búttaður lítill „kanínugrís“. Hún er sérvitur, glaðvær og áhugasöm. Besti vinur hennar er litli hænuunginn Piu Piu. Molang er kóresk teiknimyndapersóna og afskaplega vinsæl í heimalandinu.
Þegar afi ykkar er búin að þjálfa ykkur sem skrímslaveiðimenn, þá er ekkert annað í stöðunni en að veiða öll skrímslin! Það er þó eitt vandamál, krakkarnir elska skrímslin og vilja helst bara bjarga þeim. Það geta þau gert á meðan afi blundar, eða hvað?
Gamansamir þættir um strútapabbann Edda og áttburana hans. Eddi strútapabbi er fullkomnunarsinni og reynir að gera allt sem í hans valdi stendur til að vernda áttburana sína. Hann á fullt í fangi með það, enda eru ævintýrin hjá stórri fjölskyldu mörg og ímyndunaraflið mikið.
Eddi strútapabbi verður hræddur þegar eitt barna hans setur hraðvirka vél á go-kart bílinn sinn og hann vill stoppa hana þar sem hún getur meitt sig. En fyrst verður hann að ná henni.
Karla er 8 ára kjúklingur, sem hefur það að markmiði að halda öllum ánægðum, svo lengi sem það kemur ekki niður á lífi hennar. Hún elskar skólann sinn og alla vini sína. Hún leggur hart að sér til að þóknast öllum, en stundum ganga hlutirnir ekki alveg eins og áætlað var. Í þessum þáttum eru félagsleg samskipti og tilfinningar þeim tengd könnuð út frá heimi krakkanna. Hvað er rétt og hvað er rangt? Getur maður átt fleiri en einn besta vin?
Teiknimyndaþættir um Lóu sem er 12 ára og býr með mömmu sinni í stórborg. Lóu finnst hún ekki lengur vera barn og ekki alveg vera unglingur ennþá og reynir að takast á við allar þær tilfinningar sem vakna þegar unglingsárin eru að hefjast.
Þáttaröð frá 2015 úr smiðju Ævars vísindamanns. Í þessari þáttaröð leggur Ævar allt undir. Laufblásara-knúin svifbretti, segulskór og skordýrahamborgari eru bara nokkrar af þeim æsispennandi tilraunum sem koma fyrir. Dagskrárgerð: Ævar Þór Benediktsson og Eggert Gunnarsson
Í þessum þætti skoðar Ævar dýr. Jane Goodall er vísindamaður dagsins, við rannsökum Mantis-rækjuna og syngjum liti sem enginn sér nema hún. Við smökkum orkustangir úr krybbum, skoðum Vitsugu-vespur, setjum rykmaura undir smásjánna og svo ætlar Ævar að heimsækja hest sem kann bæði að telja og mála.
Fréttatengdur skemmtiþáttur þar sem keppendur spreyta sig á misalvarlegum spurningum sem sóttar eru í glóðvolgar fréttir og gamlar í bland. Stjórnandi og spyrill er Birta Björnsdóttir og henni til halds og trausts er fréttamaðurinn Ingunn Lára Kristjánsdóttir.
Gísli Marteinn tekur á móti góðum gestum á föstudagskvöldum í vetur og fer með þeim yfir helstu atburði vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi. Persónur og leikendur koma í spjall og brakandi fersk tónlistaratriði koma landsmönnum í helgarstemninguna. Stjórn útsendingar: Ragnar Eyþórsson.
Gestir þáttarins eru Eva Laufey Kjaran, Kormákur Geirharðsson og Unnur Ösp Stefánsdóttir.
Leikhópurinn úr söngleiknum Stormi kíkja í heimsókn.
Berglind Festival kynnir sér símhringingar.
K.óla og hljómsveit loka þættinum með laginu Vinátta okkar er blóm.
Þáttur sem er löngu orðinn ómissandi í bókmenntaumræðunni í landinu. Egill og bókelskir félagar hans fjalla sem fyrr um forvitnilegar bækur af ýmsum toga og úr öllum áttum. Umsjón: Egill Helgason. Dagskrárgerð: Jón Víðir Hauksson.
Gyrðir Elíasson rithöfundur verður gestur í Kilju vikunnar. Við ræðum meðal annars um þýðingar hans, endurútgáfu á ýmsum verkum hans og búferlaflutninga. Yrsa Þöll Gylfadóttir og Iðunn Arna ræða við okkur um Bekkinn minn, en þessi bráðsnjalli bókaflokkur þeirra nýtur feikilegra vinsælda meðal barna. Björn G. Björnsson hefur fjallað mikið um íslenska byggingarlist og í bókinni Frumherjum segir hann frá tíu húsameisturum sem eru fæddir fyrir aldamótin 1900. Þar koma við sögu mörg glæsileg hús, misjafnlega fræg. Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur segir okkur frá bókum sem hann heldur upp á og hafa mótað hann. Gagnrýnendur þáttarins fjalla um Kallaður var hann kvennamaður, ævisögu Sigurðar Breiðfjörð, eftir Óttar Guðmundsson og Klökkna klakatár eftir Ragnhildi Bragadóttur.
Þáttur frá 1996 um arkitektinn Rögnvald Ágúst Ólafsson, höfund Húsavíkurkirkju, Vífilsstaðaspítala, Pósthússins í Reykjavík og fleiri húsa. Dagskrárgerð: Björn G. Björnsson. Framleiðandi: Saga film.

Krakkar stýra fjölbreyttum smáseríum í Stundinni okkar í vetur - sem fjalla um ALLT milli himins og jarðar.
Leikin spennusería, fjörug þrauta- og spurningakeppni, girnileg matargerð, glymjandi rokktónlist og friðsamlegt jóga eru meðal þess sem verður á dagskrá í þessum elsta sjónvarpsþætti landsins.
Aðalþáttastjórnendur eru Helena Lapas, Imani Ósk Biallo, Kári Hlíðberg og Tómas Aris Dimitropoulos. Fjöldi annarra krakka kemur fram í þáttunum.
Dagskrárgerð: Eva Rún Þorgeirsdóttir og Ragnar Eyþórsson.
Í þessum þætti fara Erlen og Lúkas í heimsókn á Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur og skoða alls konar list. Í Jörðinni rannsaka Baldur og Linda hvaða áhrif matarsóun hefur á loftslagið okkar og Júlía og Sölvi fjalla um tilfinninguna gleði í þættinum Tilfinningalíf.
Valin myndskeið úr Landanum þar sem áhugaverðir staðir eru skoðaðir og merkilegir Íslendingar heimsóttir. Dagskrárgerð: Gísli Einarsson og Karl Sigtryggsson.
„Þetta er nú í flestra augum bara bílhræ, ryðguð bílhræ,“ segir Valdimar Benediktsson vélvirki sem hefur safnað gömlum bílum og vélum í nokkra áratugi. Landinn rölti með honum um safnið sem hann geymir á lóðinni við vélsmiðjuna sína, Véltækni á Egilsstöðum.

Beinar útsendingar frá Söngvakeppninni 2025. Kynnar eru Benedikt Valsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Fannar Sveinsson. Stjórn útsendingar: Vilhjálmur Siggeirsson og Þór Freysson.
Úrslitakvöld Söngvakeppninnar 2025 þar sem sigurlagið er valið.

Spennumynd byggð á metsölubók eftir Paulu Hawkins. Rachel tekur sömu lestina á hverjum degi og út um gluggann fylgist hún með pari sem býr í húsi nálægt lestarteinunum. Dag einn verður hún vitni að nokkru sem fær verulega á hana. Hún vaknar morguninn eftir með mikla timburmenn og alls kyns meiðsli og man ekkert frá kvöldinu áður. Þegar hún sér í fréttum að konan sem hún hefur fylgst með er horfin blandast hún sjálf inn í málið. Leikstjóri: Tate Taylor. Leikarar: Emily Blunt, Haley Bennett og Rebecca Ferguson. Myndin er ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.

Flokkur breskra sakamálamynda um Morse rannsóknarlögreglumann í Oxford á yngri árum. Hann ræður strembnar morðgátur, kynnist mönnum sem hann á eftir að starfa með næstu áratugina og þróar með sér eftirtektarverð skapgerðareinkenni sem hann á eftir að fínpússa á löngum og gifturíkum ferli. Í helstu hluverkum eru Shaun Evans og Roger Allam. Myndirnar eru ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.
Beinar útsendingar frá Söngvakeppninni 2025. Kynnar eru Benedikt Valsson, Guðrún Dís Emilsdóttir og Fannar Sveinsson. Stjórn útsendingar: Vilhjálmur Siggeirsson og Þór Freysson.
Úrslitakvöld Söngvakeppninnar 2025 þar sem sigurlagið er valið.