
Teiknimyndaþættir fyrir börn byggðir á samnefndri breskri barnabók frá árinu 1994 eftir Sam McBratney, með myndskreytingum eftir Anitu Jeram. Bókin hefur verið gefin út á yfir 53 tungumálum og selst í yfir 28 milljónum eintaka.
Krúttlegir og vinalegir þættir fyrir þau allra yngstu. Molang er búttaður lítill „kanínugrís“. Hún er sérvitur, glaðvær og áhugasöm. Besti vinur hennar er litli hænuunginn Piu Piu. Molang er kóresk teiknimyndapersóna og afskaplega vinsæl í heimalandinu.
Flóra er níu ára og finnur gat í limgerðinu úti í garði. Hún skríður í gegn og er skyndilega stödd í skóginum endalausa – galdraheimi þar sem allt getur gerst. Þar ráfa um skrítnar og stórkostlegar verur. Þær lenda í ýmiss konar vandræðum og enginn getur hjálpað þeim – nema kannski Flóra sjálf?
Danni tígur er þáttaröð sem kennir börnum að túlka tilfinningar sínar. Hvenær upplifa þau sorg, reiði og hvenær eru þau þakklát. Danni notar tónlist og syngur um það sem hann upplifir sem leyfir börnum að tileinka sér það frekar. Þátturinn er ætlaður leikskólabörnum og kennir tilfinningagreind og sjálfsvirðingu sem og virðingu fyrir öðrum.
Þáttaröð frá 2015 úr smiðju Ævars vísindamanns. Í þessari þáttaröð leggur Ævar allt undir. Laufblásara-knúin svifbretti, segulskór og skordýrahamborgari eru bara nokkrar af þeim æsispennandi tilraunum sem koma fyrir. Dagskrárgerð: Ævar Þór Benediktsson og Eggert Gunnarsson
Í þessum þætti fjallar Ævar vísindamaður fjallar um tíma og forritun. Við hittum /sys/tur í HR, skoðum fyrsta forritarann, sjáum hvernig tölvuleikur verður til og fáum Verkís til að búa til fyrir okkur flöskuskeyti sem hægt er að fylgjast með á netinu!
Sænskur heimildarþáttur frá 2024 um streitu og kulnun þar sem leitast er við að svara því hvers vegna sífellt fleiri glíma við einkenni kulnunar og hvað er hægt að gera til að reyna að koma í veg fyrir langvinna streitu.
Þáttaröð um mat og matarmenningu Íslendinga allt frá landnámi til dagsins í dag – og jafnvel nokkur skref inn í framtíðina. Gísli og Silla fara með áhorfendur í rannsóknarleiðangur þar sem þau skoða hinar ýmsu mýtur og sturlaðar staðreyndir um mat. Matarsérfræðingar greina matarhefðir, tískur og strauma – allt frá súrmat til skordýrasnakks – og stjörnukokkar fá það verkefni að búa til gómsætar máltíðir úr vinsælu hráefni liðinna tíma. Umsjón: Gísli Einarsson og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir. Dagskrárgerð: Konráð Pálmason.
Hver hefur ekki heyrt um hvítvíns- eða ananaskúrinn? Næringarfræðingar fjalla um helstu lífsstílskúra sem skotið hafa upp kollinum og velta fyrir sér hvers vegna fólk er svona heltekið af því að borða sumt en annað ekki. Spekúlantar rifja upp heimilismat sem stenst varla tímans tönn. Fjallað er um mat framtíðarinnar og smakkað á vegansteik, ófisk, grænmetishangikjöti og skordýrasnakki.
Fjallað er um Íslendinga sem settu svip sinn á íslenskt samfélag um sína daga með margvíslegum hætti. Þættirnir spegla jafnframt sögu þjóðarinnar og samtíð á ýmsum tímum, menningu, listir, stjórnmál og fleira. Þeir eru byggðir á efni úr safni RÚV á nærfellt hálfrar aldar tímabili. Dagskrárgerð: Andrés Indriðason.
Leikkonunar Áróra Halldórsdóttir, Nína Sveinsdóttir og Emilía Jónasdóttir fóru á kostum með leik og söng i revíusýningum í Iðnó og Sjálfstæðishúsinu á fyrri hluta síðustu aldar. Flutt eru atriði úr vinsælum revíum og þær rifja upp margar góðar stundir sem þær áttu á leiksviðinu. Dagskrárefnið er úr safni RÚV. Umsjón og dagskrárgerð: Andrés Indriðason.
Þáttaröð í umsjón Egils Helgasonar þar sem saga Siglufjarðar er rakin. Bærinn var lengi utan alfaraleiðar en vegna mikils uppgangs á 20. öld varð hann þungamiðja síldveiða sem um skeið voru arðvænlegasta atvinnugrein á Íslandi. Í þáttunum er einnig sagt frá skemmtanalífi, rómantík, slagsmálum, tónlist, skíðaiðkun og einstökum bæjarbrag. Dagskrárgerð: Ragnheiður Thorsteinsson.
Í þessum þætti er fjallað um hinar miklu síldarverksmiðjur sem risu í bænum og aðkomufólkið sem dreif að þrátt fyrir afleitar samgöngur. Einnig er sagt frá síldarstúlkum og síldarrómantík í bæ sem sumum þóttum býsna skítugur og illa þefjandi. Að lokum segir frá séra Bjarna Þorsteinssyni, tónskáldinu ráðríka sem stjórnaði Siglufirði á hinum mikla uppgangstíma.
Stuttir þættir um sögurnar á bak við áhugaverðar ljósmyndir. Í hverjum þætti er fjallað um eina ljósmynd og sögu hennar – hvað var að gerast þegar myndin var tekin, hverjar voru aðstæður fólksins á ljósmyndinni og hvert er samhengið við nútímann? Leikstjóri: Þorsteinn J. Framleiðsla: Þetta líf, þetta líf.
Á ljósmyndinni sem fjallað er um situr myndlistarkonan Róska, Ragnhildur Óskarsdóttir, á kaffihúsinu Austurbar ásamt Andrési Kolbeinssyni ljósmyndara. Borghildur, systir Rósku, tók myndina og segir frá tildrögum þess að hún var með systur sinni á Austurbar.
Menningarþættir fyrir ungt fólk frá 2002-2003. Í þáttunum er m.a. fjallað um tónlist og mannlíf, kynntar ýmsar starfsgreinar og fastir liðir eins og dót og vefsíða vikunnar verða á sínum stað.
Umsjón: Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og Vilhelm Anton Jónsson.
Dagskrárgerð: Helgi Jóhannesson og Hjördís Unnur Másdóttir.

Jöklarnir hafa hopað og allar þjóðsagnaverurnar úr gömlu bókunum eru komnar fram í dagsljósið. Ormhildur og Albert gamli leggja af stað í leiðangur með Guðrúnu og Brynhildi. Þau ætla að fremja galdraseið til að kveða vættirnar aftur inn í jöklana. Allt fer á hliðina þegar Albert er tekinn höndum og hópurinn hrapar í fjallinu. Á ferðalaginu uppgötvar Ormhildur að hún býr yfir leyndum hæfileika og kemst að því að töfraverurnar eru ekki allar þar sem þær eru séðar.
Flugvélin brotlendir og Ormhildur og félagar lenda í átökum við risastór skeldýr. Þau sleppa naumlega með því að flýja inn í dimma og óhugnanlega verksmiðju þar sem skeldýrin sjá ekkert.
Hallgrímur er gerður að leiðtoga Breiðholtseyju og sendir Álf að sækja Týndu bókina og stöðva hetjurnar. Inni í verksmiðjunni finnur Ormhildur ískulda frá ósýnilegum krafti sem hvíslar: „DEYÐU“, og skugga með glóandi augu sem eltir þau.

Velkomin til Eplabæjar. Eplabær er svo daufur og óspennandi að hann hefur verið tekinn út af landakortum. En ef betur er að gáð fela jafnvel mestu leiðindin í sér ævintýri. Stundum getur ómerkilegasti staðurinn orðið vettvangur stórkostlegra uppátækja – ef ímyndunaraflið fær að ráða.
Þegar afi ykkar er búin að þjálfa ykkur sem skrímslaveiðimenn, þá er ekkert annað í stöðunni en að veiða öll skrímslin! Það er þó eitt vandamál, krakkarnir elska skrímslin og vilja helst bara bjarga þeim. Það geta þau gert á meðan afi blundar, eða hvað?

Þættir um óteljandi ævintýri Strumpanna og Kjartans galdrakarls sem fara hér á kostum í Strumpabæ.
Íslenskir heimildarþættir. Viktoría Hermannsdóttir kynnist æskuslóðum viðmælenda sinna í ýmsum bæjum og hverfum. Umsjón: Viktoría Hermannsdóttir. Framleiðsla: Pera.
Borgarfulltrúinn Sanna Magdalena Mörtudóttir ólst upp í efra Breiðholti frá tíu ára aldri og telur það besta hverfi borgarinnar. Viktoría Hermannsdóttir röltir með Sönnu um æskuslóðir hennar.

Lottó-útdráttur vikunnar.

Helstu fréttir dagsins af innlendum og erlendum vettvangi. Alla daga, árið um kring.
75 ár frá því Glitfaxi fórst.

Íþróttafréttir.

Veðurfréttir.
Nýir breskir spennuþættir. Sherlock Holmes rannsakar alþjóðlegt glæpasamsæri og nýtur liðsinnis Ameliu, ungrar bandarískrar konu sem leitar bæði að föður sínum og morðingja móður sinnar. Aðalhlutverk: David Thewlis, Blu Hunt og Ardal O‘Hanlon.

Spennumynd frá 2018 um frændurna Anton og Vincent sem starfa við háhraða verðbréfaviðskipti. Þeir eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar til að græða hraðar og meira en keppinautar þeirra og hefjast handa við að leggja ljósleiðara á milli Kansas og New Jersey sem myndi gera þeim kleift að koma gögnum hraðar til skila en nokkru sinni fyrr. Leikstjóri: Kim Nguyen. Aðalhlutverk: Jesse Eisenberg, Alexander Skarsgård, Salma Hayek og Michael Mando.

Sannsöguleg kvikmynd frá 2014 eftir Mike Leigh. Myndin fjallar um síðustu 25 ár í ævi breska listamannsins J. M. W. Turner. Aðalhlutverk: Timothy Spall, Paul Jesson og Dorothy Atkinson. Myndin er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára.

Helstu fréttir dagsins af innlendum og erlendum vettvangi. Alla daga, árið um kring.
75 ár frá því Glitfaxi fórst.