Þættir um íslenska dægurtónlist þar sem tónlistarmenn koma í stutt viðtöl og flytja tónlist. Umsjón: Lovísa Rut Kristjánsdóttir. Dagskrárgerð: Guðmundur Atli Pétursson.
Fram koma Superseroius, Soffía, Inspector Spacetime, Gosi og Flott.
24 stærstu sveitarfélög landsins keppa sín á milli í skemmtilegum spurningaleik. Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir stýra þættinum. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur Bjarni Guðnason. Útsendingu stjórnar Helgi Jóhannesson.
Hvaða íslensku dægurlög hafa hljómað fyrst og fremst á Rás 2 síðustu 40 ár? Hvað einkennir síðustu fjóra áratugi í íslenskri tónlist? Þessum spurningum og fleirum verður svarað í Fyrst og fremst, laufléttum þáttum sem fanga uppáhaldslögin af Rás 2 á 40 ára afmælinu. Umsjón: Kristján Freyr Halldórsson.
Félagarnir og fyrrum Hraðfréttamennirnir Benni og Fannar réðu sig sem háseta á frystitogarann Hrafn Sveinbjarnarson frá Grindavík. Í þáttunum fáum við að fylgjast með strákunum í ævintýralegum 30 daga túr. Dagskrárgerð: Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson. Framleiðsla: Skot.
Ferðaþættir í umsjá útivistarhjónanna Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall þar sem þau ferðast með fólki um ósnortna náttúru Íslands.
Félagarnir Kristján og Kristinn vígðu tæplega 600 kílómetra Öræfaleið síðasta sumar en hún liggur á milli Lónsöræfa fyrir austan og Borgarfjarðar á Vesturlandi. Hér er fylgst með þeim eina dagleið suður undir Langjökli á meðan ferðasagan er enn að gerast. Í síðari hluta þáttarins býr hópur kvenna sig undir að þvera Vatnajökul á skíðum með því að fara í vetrarútilegu í erfiðum aðstæðum.
Orðbragð er skemmtiþáttur þar sem Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir snúa upp á íslenska tungumálið, teygja það, toga og umfaðma, knúsa og blása í það lífi. Umsjónarmenn eru Bragi Valdimar Skúlason og Brynja Þorgeirsdóttir. Dagskrárgerð: Konráð Pálmason.
Í fyrsta þættinum skoðum við hvernig best er að smíða ný orð, eins og „togleðurshringur“ og „sími“. Misheppnuð nýyrði, fyrirtaks nýyrði og snjöllustu orðasmiðir landsins verða til viðtals. Tónlistarmaðurinn Matthías Matthíasson er gæddur einstökum hæfileika; hann getur talað afturábak. Við leggjum fyrir hann próf. Í sms skilaboðum og í gegnum netið fara samskipti stundum fram með ansi hreint merkilegum styttingum og skammstöfunum, eins og „ves“ og „gg“. Við ræðum við þrjá unga sérfræðinga sem túlka það helsta. Tíu furðulegustu götunöfnin á Íslandi verða valin í þættinum, og einu ofnotuðu og útjöskuðu orði verður lógað. Matthías Matthíasson syngur heilt lag afturábak fyrir okkur.

Keppni í skapandi þrautum. Skaparar og keppendur hafa 10 mínútur til að klára þraut og taka þátt í Stórhættulegu spurningakeppninni. Þegar tíminn er hálfnaður draga keppendur babb-spjöld. Að sjálfsögðu endar þetta á vænni slímgusu. Dagskrárgerð: Sigyn Blöndal og Sindri Bergmann Þórarinsson.
Í þættinum keppa Guðmundur Breki Guðmundsson og Ninna Björk Þorsteinsdóttir fyrir gula liðið og Júlíus Helgi Ólafsson og Elín Víðisdóttir fyrir bláa liðið. Þau búa til prump. Nei djók þau búa til prumpuslím. Keppnin er gríðarlega spennandi og hermikrákur og hljóðkútar hamast við að hala inn stigum fyrir sitt lið.
Inni í okkur öllum búa allskonar tilfinningar. Gleði, reiði, leiði, kvíði, spenningur og svo ótal margar fleiri tilfinningar.
Þættirnir Tilfinningalíf fjalla um þessar tilfinningar og hvernig við bregðumst við þeim.
Umsjón: Júlía Ósk Steinarsdóttir og Sölvi Freyr Helgason
Dagskrárgerð: Eva Rún Þorgeirsdótir og Elvar Örn Egilsson
Allir finna einhverntíma fyrir kvíða, það er alveg eðlilegt. Kvíði getur látið okkur líða illa. Við getum upplifað hraðan hjartslátt, svima og verk í maga. Sölvi og Júlía skoða þessa tilfinningu og komast að því að hún er alls ekki hættuleg og getur stundum jafnvel verið gagnleg.
Tilfinningalíf er unnið í samstarfi við Sálstofuna.
Lifandi og fjölbreyttur þáttur um fréttir, menningu og dægurmál. Helstu fréttir dagsins eru krufðar og ljósi varpað á litríkt mannlíf um land allt. Umsjón: Baldvin Þór Bergsson, Bergsteinn Sigurðsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Óðinn Svan Óðinsson, Urður Örlygsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir.
Getur verið að stjórnvöld séu að brjóta lög með því að aðstoða leigufélög að byggja hagkvæmt húsnæði fyrir tekjulægra fólk? Það telur Viðskiptaráð, sem hefur sent ESA- eftirlitsstofnun EFTA, kvörtun vegna stuðnings stjórnvalda við óhagnaðardrifin leigufélög. Í kvörtuninni kemur fram að ráðið telji stuðninginn brjóta í bága við EES-samninginn og grafa undan samkeppni á markaði. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Dagur B. Eggertsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri, takast á um málið í Kastljósi.
Ferðaþættir þar sem leikarinn Örn Árnason bregður sér í hlutverk leiðsögumanns og ferðast um áhugaverða staði við þjóðveginn eða örskammt frá. Frikki Frikk, tökumaður og ljósmyndari, er fylgdarsveinn Arnar í þessum ferðum og saman sýna þeir fram á að stundum er óþarfi að leita langt yfir skammt. Léttir þættir þar sem fjallað er um náttúru, sögu og menningu.
Í þættinum heimsækjum við Jónasarlund á Laugarvatni, kíkjum í Skálholt og spáum í siðaskiptin. Einnig skoðum við konungssteina á Geysi.
Þriðja þáttaröð þessara norsku leiknu þátta um samfélagið í Stafangri og breytingarnar sem urðu þegar olía fannst í sjónum úti fyrir bænum og norska olíuævintýrið hófst. Meðal leikenda eru Anne Regine Ellingsæter, Malene Wadel, Mads Sjøgård Pettersen og Pia Tjelta.
Sannsöguleg bresk þáttaröð frá 2023 um leitina að raðmorðingjanum sem kallaður er kviðristan frá Yorkshire. Sögur fórnarlamba hans og vinnubrögð lögreglunnar eru í forgrunni. Yfir þúsund lögregluþjónar tóku þátt í leitinni sem stóð yfir frá 1975 til 1981 og varð rannsóknin til þess að breska lögreglan breytti verklagi sínu til frambúðar. Aðalhlutverk: Jack Deam, Kris Hitchen og Lee Ingleby. Þættirnir eru ekki við hæfi barna yngri en 16 ára.