
Magister í fangabúðum nasista
Vorið 1943 var Baldur Bjarnason handtekinn af norsku lögreglunni þegar hann freistaði þess að komast yfir landamærin til Svíþjóðar. Hann var færður þýskum hernaðaryfirvöldum og vistaður í stærstu fangabúðum Þjóðverja í Noregi, Grini-búðunum skammt suðaustan við Ósló. Þar var honum haldið föngnum næstu mánuði og þoldi harðræði og hungur. Eftir um hálfs árs dvöl var honum sleppt lausum og í kjölfarið tókst honum að flýja til Svíþjóðar. Þar ritaði hann minningar sínar frá dvölinni í Grini-búðunum og hvernig var að búa í Noregi undir hernámi Þjóðverja. Baldur var einn örfárra Íslendinga sem þoldi vist í fangabúðum nasista. Í frásögn sinni af dvölinni velti hann fyrir sér dýpri spurningum um eðli fasisma, áróðurs og hernaðar, spurningum sem eru því miður þær sömu og margir spyrja sig nú.
Umsjón: Kristján B. Jónasson